Skip to Content

Heiðursviðurkenning FNS 2015

Frá árinu 2006 hefur það tíðkast að stjórn FNS veiti heiðursviðurkenningu fyrir störf í þágu náms- og starfsráðgjafar. Óskað er eftir tilnefningum til  félagsmanna varðandi hverja þeir telja hafa lagt eitthvað sérstakt til málanna eða unnið að verkefni sem hefur markað spor í náms- og starfsráðgjöf. Þetta árið líkt og önnur bárust áhugaverðar tilnefningar og vitum við öll að margir félagsmenn eru verðugir þessarar viðurkenningar.

Í ár verður heiðursviðurkenningin veitt í tíunda skiptið. Sá félagsmaður sem fær heiðursviðurkenningu FNS 2015 var ekki tilnefndur af félagsmönnum í fyrsta skipti í ár en núna er komið að honum þar sem tilnefningarnar voru nokkrar. Hann hefur unnið ötullega að því að leiða og móta náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna á símenntunarstöðvunum og verið leiðandi í þróun raunfærnimats. Þetta er Fjóla María Lárusdóttir.

Í einni tilnefningunni stendur “Ég myndi vilja benda á Fjólu Maríu Lárusdóttur, sem hefur leitt uppbyggingu á náms- og starfsráðgjafarþjónustu innan símenntunarstöðvanna, verið alveg óþreytandi við það.”

Fjóla María Lárusdóttir hefur starfað sem náms- og starfsráðgjafi hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins frá árinu 2003 en vann m.a. áður hjá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu og Mími-símenntun. Einnig starfaði hún sem stundakennari við námsbraut HÍ í náms- og starfsráðgjöf 2005-2010. Fjóla er með Meistarapróf í náms- og starfsráðgjöf frá California State University á Long Beach og B.Ed próf frá Kennaraháskóla Íslands. Helstu verkefni hennar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins tengjast þróun aðferðafræði í náms- og starfsráðgjöf og mati á raunfærni fyrir fólk á vettvangi framhaldsfræðslunnar (fólk með litla formlega menntun).

Fjóla María er reynslumikil á sviði náms- og starfsráðgjafar og er vel að þessum verðlaunum komin.

Við óskum Fjólu Maríu innilega til hamingju með viðurkenninguna.

f.h. stjórnar FNS,

Ingibjörg Kristinsdóttir, formaðurfrett | about seo