Skip to Content

Það er engin lognmolla í kringum þetta starf

„Ég ákvað í fyrra að stíga út fyrir þægindahringinn af og til og mér fannst þetta kjörið tækifæri til þess,“ segir Helga Helgadóttir nýkjörinn formaður FNS um ástæður þess að hún gaf kost á sér í starfið. Helga er með kennaramenntun í grunninn en tók meistarpróf í náms- og starfsráðgjöf árið 2006 og hefur starfað sem náms- og starfsráðgjafi við Hraunvallaskóla í Hafnarfirði síðan þá. „Þetta kom í raun til þegar kona sem ég met mikils hafði samband við mig og spurði hvort hún mætti mæla með mér í þessa stöðu. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að slá til enda tel ég að náms- og starfsráðgjöf sé í sókn í kjölfar aukins vægi starfsins með nýjum lagasetningum og nýjum námsskrám. Svo er líka svo mikið af flottu fólki í félaginu og það hlýtur að vera gott að leita ráða hjá stétt þar sem allir eru ráðgjafar. Ég er að taka við góðu búi af fyrrum formanni og fráfarandi stjórn. Sumir stjórnarmeðlimir ætla meira að segja að sitja áfram og það er gott að hafa þá reynslu innanborðs,“ segir Helga.

„Félagið hefur staðið sig vel hingað til í að hvetja og styðja við náms- og starfsráðgjafa að sækja sér endurmenntun og ég vil halda því áfram. Til að sinna þessu starfi faglega þarf maður að vera svolítið á tánum af því að það breytist allt svo hratt. Maður getur ekki bara útskrifast úr skóla og sagt svo fólki að það eigi að gera hlutina svona og hinsegin,“ segir Helga. Hún vill líka leggja áherslu á að félagið sé fyrir alla náms- og starfsráðgjafa hvar sem þeir eru starfandi á landinu. Auk þess þykir henni mikilvægt að viðhalda þeim góðu tengslum sem félagið hefur átt við samstarfsaðila sína eins og ráðuneyti, háskólasamfélagið og atvinnulífið. „Eitt af markmiðum félagsins er að auka fagvitund félagsmanna. Fagvitund þarf að vera sterk og skýr. Sem félag getum við kynnt fyrir samfélaginu hvað felst í starfi okkar og að allir geti fengið náms- og starfsráðgjöf. Ég tel að það sé gott fyrir fólk á krossgötum að vita að það getur fengið ráðgjöf. En svo það geti orðið þurfum við að efla og kynna starfið út á við,“ segir Helga.

Hún telur auk þess mikilvægt að auka vægi náms- og starfsfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Það gefist yfirleitt ekki mikill tími í slíkt enda sé hver námsráðgjafi með marga nemendur á sinni könnu og því sé gríðarlega mikilvægt að félagið þrýsti á skólastjórnendur að nemendur fái meiri fræðslu. „Það skiptir nefnilega máli varðandi brottfall og nú erum við að heyra fréttir um að það sé að aukast aftur. Við vitum auk þess að náms- og starfsfræðsla á þessum skólastigum er mikið öflugri í löndunum í kringum okkur. Skilningur skólastjórnenda á mikilvægi náms- og starfsfræðslu er misjafn en við viljum auka hann,“ segir Helga.
„Starf náms- og starfsráðgjafa snýst fyrst og fremst um að veita nemendum þann stuðning sem þeir þurfa á að halda til að farnast betur í námi. Það skiptir ekki öllu máli hvers vegna þeir þurfa stuðning heldur skiptir það máli að þeir fái hann svo þeir geti lokið námi sínu og sett sér markmið um það sem tekur við. Við erum alls ekki bara að veita ráðgjöf um nám og störf heldur ráðgjöf í miklu víðara samhengi,“ segir Helga og á við að nemendur komi í skólann með öll sín vandamál og lífsreynslu á herðunum og eyði þar drjúgum hluta dags en líðan þeirra hefur áhrif á námsárangur. „Ráðgjöfin snýr því oft að einhverju miklu persónulegra en námsráðgjöf, en þetta helst í hendur. Við vinnum mikið í því að byggja upp sjálfstraust, bæði hjá hópum og einstaklingum. Þannig hefur starfið að minnsta kosti þróast hjá mér og ég held að það sé nokkuð algengt,“ segir Helga.

„Ég held að allir náms- og starfsráðgjafar, sama á hvaða stigi þeir eru, stefni að því sama. Að styðja við fólk og sjá hvar áhugasvið þerra liggur. Starf með yngri börnum, eins og í grunnskóla, er unnið mikið í gegnum foreldra þeirra. Þú gefur ekki litlu barni ráð eins og „prófaðu bara að gera þetta“ það þarf meiri stuðning við það frá foreldrum eða kennurum. Fullorðið fólk er hins vegar með meiri lífsreynslu svo það er ólíkt að fást við börn og fullorðna,“ segir Helga. Hún telur þó ekki mikinn mun á starfi náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskóla og grunnskóla. „Það eru aðallega ólík vandamál hjá fólki. Í framhaldsskóla ertu kannski með unga einstæða móður sem þarf að styðja eða unglinga sem eiga í fjárhagserfiðleikum. Það eru öðruvísi mál sem koma upp en þurfa öll þá nálgun að við séum að styðja, hvetja og aðstoða einstaklinga við að komast í gegnum það sem þeir eru að glíma við,“ segir Helga. „Starf náms- og starfsráðgjafa er gríðarlega fjölbreytt og viðamikið. Maður vinnur með ótrúlega ólíku fólki, bæði börnum og fullorðnum með ólíkan bakgrunn, viðhorf, skoðanir o.s.frv. og það er áskorun að mæta þeim á þeirra forsendum en ekki þínum. Náms- og starfsráðgjafar eru talsmenn nemenda og það getur verið vandasamt að aðstoða þá án þess að troða kennurum um tær. Það er jafnframt það sem gerir þetta svona skemmtilegt, þessar áskoranir. Það er engin lognmolla í kringum þetta starf,“ segir Helga. „En svo gefur það manni líka mikið þegar maður sér árangur og finnst maður hafa gert gagn. Þegar maður sér einhvern blómstra í fyrsta skipti og maður heldur að maður eigi kannski pínulítinn þátt í þeim árangri. Ég verð líka alltaf svolítið klökk þegar ég kveð 10. bekkinn á vorin og sé á eftir þeim út í lífið. En það er líka gaman að starfa í grunnskóla því þá fær maður að fylgjast með börnunum þroskast frá því þau koma pínulítil og blaut á bak við eyrun inn í fyrsta bekk og þar til þau útskrifast nánast fullorðin úr 10. bekk. Maður fær að fylgjast með öllu þroskaferlinu,“ segir Helga.

(Tekið saman af Kristínu Björk Jónsdóttur meistaranema í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Vor 2013).


 

 page | about seo