Skip to Content

Heildræn náms- og starfsráðgjafaáætlun á óskalistanum

„Það hefur eiginlega alltaf blundað í mér náms- og starfsráðgjafi, ég var lánsöm að eiga góða náms- og starfsráðgjafa að á minni skólagöngu og fannst starfið þeirra mjög heillandi,“ segir Sandra Þóroddsdóttir sem starfar í Fjölbrautarskólanum í Ármúla.

Hún útskrifaðist úr meistaranámi í náms- og starfsráðgjöf síðastliðið haust en hún hefur starfað í geiranum samhliða náminu frá því í byrjun árs 2010. „Þegar ég mætti fyrst til vinnu sem náms- og starfsráðgjafi var enginn sem tók á móti mér og setti mig inn í starfið. Sú sem hafði verið í starfinu á undan mér var hætt. Strax fyrsta daginn voru komnir nemendur fyrir framan dyrnar og ég gerði bara það sem ég átti að gera eða hélt að ég ætti að gera. Þetta var auðvitað frábær reynsla, ég tókst á við allt sem barst inn á borð til mín og tók við alls konar verkefnum en ég var samt pínu óörugg. Ég var hins vegar svo heppin að vera í starfsþjálfun í öðrum framhaldsskóla samhliða fyrstu mánuðunum í starfi. Þar lærði ég mikið og fékk góðan stuðning frá leiðbeinandanum mínum. Mér fannst samt sem áður vanta einhvern samræmdan ramma eða betri starfslýsingu sem nýir náms- og starfsráðgjafar gætu leitað í. Það eru nefnilega svo margir einir á vettvangi, náms- og starfsráðgjafar eru oft hálfgerðir einyrkjar. Þá mundi ég eftir alhliða náms- og starfsráðgjafaáætlun sem ég hafði lesið um í náminu og er meðal annars notuð í Bandaríkjunum. Það varð svo kveikjan að meistararitgerðinni minni,“ segir Sandra.

„Rannsóknin var unnin með eigindlegri rannsóknaraðferð og byggir á viðtölum við sjö náms- og starfsráðgjafa í mismunandi framhaldsskólum. Markmið ritgerðarinnar var að fá innsýn í starf náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólum, helstu verkefni sem þeir sinna og upplifun þeirra á samstarfi við stjórnendur og kennara. Þá var einnig markmið að fá fram viðhorf þeirra til heildrænna náms- og starfsráðgjafaráætlana og þörfina á því að innleiða slíka áætlun á Íslandi,“ segir Sandra. Með heildrænni áætlun er lögð áhersla á að náms- og starfsráðgjafar vinni í teymi með starfsfólki skóla, skólastjórnendum, foreldrum og öðrum í samfélaginu við að bæta skólastarfið. Allir sem standa að nemandanum mæta þörfum hans og hjálpa honum að ná hámarksárangri með forvörnum, fræðslu og inngripum. Þá fá nemendur aukna hæfni í að takast á við framtíðina og foreldrum gefst tækifæri á að byggja upp framtíð barna sinna í samstarfi við skólann. Auk þess stuðlar heildræn áætlun að því að starf náms- og starfsráðgjafans verður markvissara, betur skilgreint og hægt að mæla árangur þess.

Sandra bendir á að samkvæmt lögum eigi allir nemendur rétt á náms- og starfsráðgjöf. „Hvernig eigum við að geta náð til allra nemenda í skólanum? Það gefur auga leið að í þúsund manna skóla er ekki hægt að ná til allra með persónulegri ráðgjöf þó hún skili bestum árangri. Í rannsókninni minni kom í ljós að mestur tími náms- og starfsráðgjafa fer einmitt í persónulega ráðgjöf en færri stundir í annað eins og til dæmis hópráðgjöf sem hentar betur til að ná til fleiri einstaklinga í einu. Réttur allra nemenda til náms- og starfsráðgjafar kallar á betra skipulag, en fyrirkomulagið hefur hingað til verið þannig að þeir sem leita eftir þjónustunni eru þeir sem fá hana. Svo það sé raunhæft að allir nemendur njóti náms- og starfsráðgjafar þarf að innleiða heildræna náms- og starfsráðgjafaráætlun sem byggir á því að eitt stöðugildi náms- og starfsráðgjafa sé að baki hverjum 300 nemendum. Auk þess sem heildræn áætlun gæti hjálpað okkur að áætla fjölda klukkustunda á viku í ákveðin verkefni eins og til dæmis einstaklingsráðgjöf, hópráðgjöf og endurmenntun. Þannig væri líka auðveldara að gera starfið okkar sýnilegra,“ segir Sandra.

Allir viðmælendur hennar voru jákvæðir gagnvart áætluninni en fannst mikilvægt að hægt væri að leita í áætunina eftir sýnum forsendum og móta eftir sínu starfi. Því þyrfti að meta hvort útbúa ætti eina heildaráætlun sem næði til allra eða sér áætlun fyrir hvert skólastig. Sandra segir að ef farið yrði út í slíka vinnu væri eðlilegast að fara þá leið, líkt og í Bandaríkjunum, að félag náms- og starfsráðgjafa myndi þróa áætlunina. „Hins vegar eru þeir sem koma að félaginu í sjálfboðastarfi en það þarf fjármagn og meiri vinnu í gerð áætlunarinnar til að það sé raunhæft fyrir félagið að taka það að sér. Það mætti þó skoða möguleikana á styrkveitingum eða góðum stuðningi frá menntamálaráðuneytinu,“ segir hún og vonast til að áætlunin verði að veruleika áður en langt um líður.

„Ég held að við, náms- og starfsráðgjafar, þurfum að vera duglegir að kynna starfið okkar og vera sýnilegir innan skólanna. Kynna okkur fyrir kennurum, nemendum, samstarfsfólki og foreldrum. Við hérna í Fjölbraut við Ármúla sendum kennurum skólans bréf í byrjun hverrar annar með upplýsingum um hvað við erum að gera auk þess að vera stundum með innlegg á starfsmannafundum eða starfsdögum,“ segir Sandra. En hún telur mikilvægt að allir náms- og starfsráðgjafar séu sýnilegir útávið því það séu margir sem viti ekkert út á hvað starf þeirra gengur. „Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er þó einna helst að vera til staðar fyrir nemendur, aðstoða þá og standa við bakið á þeim. Reyna að koma málum þeirra áfram, styrkja þá og gera þá sjálfstæða auk þess að vera talsmaður þeirra og trúnaðarmaður,“ segir hún. Sandra telur starf náms- og starfsráðgjafa að mörgu leiti svipað á vinnumiðlunum og innan menntastofnanna. „Við erum alltaf að aðstoða einstaklinga við nám og störf.
Vandamálin eru hins vegar ekki alls staðar þau sömu enda einstaklingarnir sem um ræðir ekki allir á sama aldri eða á sama stað í þroska,“ segir hún.


„Þau vandamál sem nemendur koma með til okkar snúa oft að félagslegum eða andlegum erfiðleikum. Þegar nemendur eiga erfitt heima fyrir getur það haft áhrif á námið og það er sennilega erfiðast þegar maður er með ungan einstakling sem hefur ekki sterkt bakland. Maður þarf að styðja sérstaklega vel við þá,“ segir Sandra. „Það er annars misjafnt hvað nemendur sækja mikið í þjónustuna hjá okkur. Sumir koma bara einu sinni með einfalda fyrirspurn á meðan aðrir koma oft vegna sinna mála. Við hittum líka rosalega fjölbreyttan hóp af fólki hérna, bæði fólk utan af götu sem langar að fara í nám og eins nemendur okkar sem eru frá sextán ára aldri og allt upp yfir sextugt. Það er mikið líf og fjör hjá okkur og alltaf eitthvað að gerast. Mér finnst ég mjög lánsöm að fá að vinna í framhaldsskóla og með tveimur samstarfskonum þar sem við getum leitað til og stutt hvor aðra. Unga fólkið er á skemmtilegum aldri og það er hægt að vinna mikið með þau. Eldra fólkið er oft með neikvæða mynd af skólagöngu þegar það byrjar aftur eftir langt hlé en upplifir svo oft hvað því gengur vel og sér hvað það getur. Það kemur oft sjálfu sér á óvart og það er gaman að fylgjast með því. Stundum finnst manni maður gera voðalega lítið fyrir fólk en finnur að maður hjálpar því samt mjög mikið. Þetta er mjög gefandi starf,“ segir Sandra.

(Tekið saman af Kristínu Björk Jónsdóttur meistaranema í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Vor 2013).


page | about seo