Skip to Content

Gefur mikið að finna að vinna manns skilar árangri

Gefur mikið að finna að vinna manns skilar árangri

„Mér finnst það forréttindi og í raun áfangasigur fyrir þá sem búa á landsbyggðinni að þurfa ekki að flytjast búferlum til að bæta við sig menntun,“ segir Anna María Arnfinnsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Grunnskólann á Egilsstöðum. Anna María var í hópi fyrstu náms- og starfsráðgjafanna sem útskrifðuðust úr fjarnámi við Háskóla Íslands. Nú aðstoðar hún unglinga á landsbyggðinni við val á námi. Hún segir flesta nemendur í grunnskólanum velja framhaldsskóla á Egilsstöðum og nágrenni og að þeir sem velji verk- og iðnnám taki oft bóklega hluta námsins í heimabyggð. Þeir flytjist svo til Reykjavíkur þegar kemur að verklega hlutanum. „Kostirnir eru að krakkarnir geta verið nálægt heimili sínu og foreldrar geta aðstoðað þá. Með því móti þurfa þeir ekki að standa á eigin fótum strax að loknum grunnskóla. Þeir vilja stíga sín fyrstu skref í framhaldsskóla í heimabyggðinni,“ segir Anna María en bætir við að skólinn á Egilsstöðum hafi reynt að koma til móts við nemendur sem ætla í verknám með því að biðja fyrirtæki á staðnum að aðstoða með starfsnám. Krökkunum finnist þó stundum spennandi að sækja um skóla í Reykjavík bara til að sjá hvort þau komist inn.

Anna María telur starf náms- og starfsráðgjafa á landsbyggðinni að vissu leyti frábrugðið starfi náms- og starfsráðgjafa á höfuðborgarsvæðinu. „Við búum að því að við erum í nálægð við nemendur og þekkjum betur bakgrunn þeirra. Skólar eru líka oft minni úti á landi og við sjáum því fljótt ef nemendur þurfa á aðstoð að halda og getum gripið fyrr inn í,“ segir Anna María. Einnig segist hún fá alls kyns verkefni inn á borð til sín sem eigi ekki endilega heima hjá náms- og starfsráðgjafa. Til að mynda fái hún stundum börn í stuðningsviðtöl sem þyrftu kannski frekar að sækja meðferðarviðtöl hjá sálfræðingi. Hún segist alls ekki koma í stað sálfræðings en hún reyni að hlusta á börnin og ráðleggja þeim eftir fremsta megni. „Maður reynir bara að gefa krökkunum von og styðja þá. Það er alveg ómetanlegt að reyna að vera Pollýanna í þessu starfi,“ segir Anna María.

„Oft eru vandamálin sem við glímum við í grunnskólanum tengd samskiptum, hegðun eða áhyggjum nemenda. Þá þarf maður að hugsa um velferð þeirra, hlúa að þeim og finna réttu leiðirnar fyrir þá,“ segir Anna María. Hún fæst þó ekki aðeins við vandamál heldur aðstoðar elstu börnin til dæmis við val á framhaldsnámi. „Mér finnst skemmtilegt að ræða við unglinga um framhaldið, að fá tækifæri til þess að opna hjá þeim glugga inn í framtíðina,“ segir hún. Anna María segist hafa heyrt að starfsfólk í Menntaskólanum á Egilsstöðum finni mun á nemendum sem fengið hafa náms- og starfsráðgjöf í grunnskóla, þeir séu betur undirbúnir en aðrir. „Krökkunum bregður þó stundum þegar þau fara í framhaldsskóla. Þar er námið þyngra og meiri vinna sem þarf að leggja á sig, ekkert „elsku mamma“ neitt. Þau þurfa allt í einu að taka ábyrgð á sínu eigin námi,“ segir Anna María. En hún telur flesta grunnskólanemendur ekki hugsa um námið á þann hátt. Þeir hugsi til dæmis ekki mikið um námstækni og skipulag fyrr en þeir komi í framhaldsskóla.

Anna María segir starf sitt í grunnskólanum að vissu leiti frábrugðið starfi náms- og starfsráðgjafa á öðrum skólastigum. Hún telur til að mynda að persónuleg mál nemenda séu oft orðin þyngri í menntaskóla og erfiðara að vinna úr þeim. Fólk í atvinnulífinu geti líka stundum orðið þungt og vonlaust á að vera atvinnulaust í langan tíma. Anna María vinni hins vegar með krökkum sem horfi vongóð fram á veginn og sjái framtíðina í björtu ljósi. „En það sem er eflaust eins á öllum stigum er hvað það gefur manni mikið að finna að vinnan manns skilar árangri. Þegar nemendur komast upp úr hjólförunum og maður veit að maður hefur hjálpað,“ segir Anna María. Henni finnst frábært að ná árangri og ekki verra ef hún fær klapp á bakið frá foreldrum og kennurum. „Það er þó kannski best þegar krakkarnir finna sjálf hversu gott þau hafa af því að tala við mig. Þegar þau koma til mín aftur og aftur og ég finn að þau sækja í aðstoðina,“ segir Anna María.

 page | about seo