Skip to Content

„Það er gefandi að hjálpa öðrum“

 

„Það eru sólskinssögurnar sem gefa þessu starfi gildi. Að taka á móti fullorðnum einstaklingi sem hefur ekki lokið fagnámi sínu og er neikvæður gagnvart skólakerfinu. Að ná að breyta afstöðu hans og vera viðstödd þegar viðkomandi tekur á móti sveinsbréfinu geislandi af stolti. Það er frábær tilfinning,“ segir Iðunn Kjartansdóttir, náms- og starfsráðgjafi. Hún vinnur hjá IÐUNNI fræðslusetri sem sinnir sí- og endurmenntun í iðnaði. Þar starfa fjórir náms- og starfsráðgjafar og felst starf þeirra að miklu leiti í því að ná til fólks sem einhverra hluta vegna lauk ekki námi í framhaldsskóla og hvetja það til að fá raunfærni sína metna og bæta við sig frekari menntun.

Það eru helst karlar sem nýta sér þjónustu IÐUNNAR fræðslusetursins og meðalaldur þeirra er um þrjátíu ár. Margir hverjir hafa sömu sögu að segja, að þeim hafi liðið illa í grunnskóla þar sem þeir fundu sig ekki. Styrkur þeirra hafi þó komið í ljós úti í atvinnulífinu og þar hafi þeir fengið hrós. „Við viljum vinna með styrkinn okkar. Við viljum vera þar sem okkur gengur vel og þar sem okkur er hrósað,“ hefur Iðunn eftir þeim. Hún telur að fólk sem hefur fundið sitt starf eða sína hillu í atvinnulífinu ætti tvímælalaust að sækja sér menntun og réttindi á því sviði. Hjá IÐUNNI fræðslusetri leggja náms- og starfsráðgjafar sig fram við að finna námsframboð sem hentar hverjum einstaklingi fyrir sig og bjóða einnig raunfærnimat þar sem styrkleiki einstaklings í fagi er fundinn, greindur og metinn á móti viðmiðum aðalnámsskrárinnar. Iðunn segir að þeir einstaklingar sem nýta sér þjónustu fræðslusetursins séu flestir sammála um það að náms- og starfsráðgjöfin skipti þá gríðarlegu máli svo þeir klári námið sitt.

Iðunn hélt fyrirlestur á ráðstefnu Iðnmenntar sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica á dögunum. Þar fjallaði hún um hvað hefur áhrif á náms- og starfsvals einstaklinga. Á ráðstefnunni var verið að ræða ástæður þess að aðsókn í iðn- og verknám er eins dræm og raun ber vitni. En það eru ekki nema um 9-10% nemenda sem velja slíkt nám að loknum grunnskóla. Þar af er hátt hlutfall þeirra af landsbyggðinni. Á ráðstefnunni var áhersla lögð á kynningarmál iðn-,verk- og tæknináms. Hvað þarf að efla í upplýsingaflæðinu, hvernig og hverjir þurfa að koma að átakinu.

Menntamálaráðuneytið hefur skipað samráðshóp sem leggur áherslu á kynningu starfsmenntunar. Þar á að skoða leiðir til að efla áhuga á iðn- og verknámi og kynna það betur fyrir nemendum, foreldrum og starfsfólki grunnskólanna. Iðunn er meðal þeirra sem eiga sæti í nefndinni og situr í henni fyrir hönd FNS. Hún segir þarft að efla ímynd starfa sem tilheyra þessum geira, fólk hugsi oft um þau sem líkamlega erfið og skítug. Auk þess þurfi að vekja fólk til umhugsunar um ánægju í starfi og að það sé framhaldsnám eftir iðnnám. Oft velji börn ekki nám eftir áhugasviði eða styrkleika heldur hlusti frekar á foreldra og vini sem benda stundum á að best sé að klára stúdentsprófið fyrst. Iðunn bendir á að „það eru í raun tveir markhópar sem við þurfum að ná til. Það er ekki nóg að ná bara athygli nemendanna heldur þurfum við að ná til foreldranna líka og fá starfsfólk grunnskólanna með okkur“.

Iðunn segir að starf hennar sem náms- og starfsráðgjafi snúist að miklu leiti um að ná til fólks. Að finna leiðir fyrir það, hjálpa því, styrkja það og hvetja áfram í námi og starfi. Á öllum skólastigum séu náms- og starfsráðgjafar að fást við námsörðugleika. „Ég sem starfa í atvinnulífinu er með markhóp sem hefur starfað lengi í sinni iðn en ekki lokið tilskyldu námi. Hópurinn hefur mikla og fjölbreytta starfsreynslu og við aðstoðum fólk að setja sér markmið og í kjölfarið verður það meira "fókuserað“. Fólk er meira tilbúið,“ segir hún. „En það sem er sammerkt með starfinu er að við hjálpum fólki að komast inn á þá braut sem hentar viðkomandi. Við hjálpum fólki að sjá það jákvæða. Að sjá glasið hálf fullt frekar en hálf tómt,“ segir Iðunn og bætir við að þrátt fyrir alla jákvæðnina fái náms- og starfsráðgjafar almennt ekki mikið hrós í starfi sínu. Það sé þó ekki þar með sagt að í starfinu felist engin umbun eða eins og hún segir: „Þú sáir fræi sem fer svo að blómstra og ef þú færð að fylgjast með fólki þroskast gefur það þér heilmikið. Það er gefandi að hjálpa öðrum.“


(Tekið saman af Kristínu Björk Jónsdóttur meistaranema í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Vor 2013).


page | about seo